Um okkur

Eigendur og ráðgjafar Nordica ráðgjafar eru þeir dr. Helgi Þór Ingason og dr. Haukur Ingi Jónasson.
Auk þeirra eru tengiliðir við Endurmenntun Háskóla Íslands og Símenntun Háskólans á Akureyri, þær Elín og Elín.

Helgi Þór Ingason

Helgi Þór Ingason

Eigandi og ráðgjafi

Helgi Þór Ingason (f. 1965) er með doktorsgráðu í framleiðsluferlum í stóriðju frá Tækniháskólanum í Þrándheimi, MSc í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og CSPM í verkefnastjórnun frá Stanford University. Hann hefur alþjóðlega vottun sem verkefnastjóri (Certified Senior Project Manager). Helgi Þór er prófessor og forstöðumaður og leiðandi fyrirlesari í MPM-námi við Háskólann í Reykjavík, sem er fjögurra missera meistaranám í verkefnastjórnun. Helgi Þór hefur kynnt rannsóknir sínar á ráðstefnum og í ritrýndum tímaritum. Hann er meðhöfundur átta bóka um verkefnastjórnun, vöruþróun, gæðastjórnun og siðfræði verkefnastjórnunar. Hann er annar tveggja eigenda Nordica ráðgjafar ehf. og starfar þar sem ráðgjafi. Helgi Þór var áður forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur og dósent við Háskóla Íslands. Hann er í rannsóknarsamstarfi við The Cooper Union for the Advancement of Sciences and the Arts í New York. Helgi Þór hlaut heiðursmerki Verkfræðingafélags Íslands árið 2016.

Helstu rannsóknarsvið Helga eru verkefnastjórnun, gæðastjórnun, siðfræði verkefnastjórnunar, kvik kerfislíkön, orkuinnviðir og orkukerfi framtíðar. Nánari upplýsingar um Helga Þór má finna hér.

Helgi er þekktur sem fyrirlesari bæði á Íslandi og erlendis. Í frítíma sínum spilar Helgi á píanó og harmónikku, meðal annars með Kólgu og South River Band en einnig við flutning á eigin tónlist en hljómdiskurinn Gamla hverfið með lögum og textum Helga Þórs kom út vorið 2013.

Netfang Helga Þórs er heling@simnet.is

Haukur Ingi Jónasson

Haukur Ingi Jónasson

Eigandi og ráðgjafi

Haukur Ingi Jónasson (f. 1966) lauk cand. theol.-prófi frá guðfræðideild Háskóla Íslands og doktorsgráðu í geðsjúkdómafræðum og trúarbrögðum (Psychiatry and Religion) frá Union Theological Seminary (sem er í samstarfi við Columbia University) í New York. Hann hlaut klíníska þjálfun sem sjúkrahúsprestur á Lennox Hill Hospital/The HealthCare Chaplaincy Inc. og hefur lokið klínísku námi í sálgreiningu frá The Harlem Family Institute í New York. Hann er ásamt Helga Þór Ingasyni höfundur að bókunum Leiðtogafærni, Samskiptafærni, Stefnumótunarfærni og Skipulagsfærni. Haukur starfaði sem lektor við verkfræði- og náttúruvísindavið Háskóla Íslands um árabil en er nú lektor við Háskólann í Reykjavík og er ásamt Helga forstöðumaður meistaranáms í verkefnastjórnun (MPM) við skólann. Hann hefur kennt fjölda námskeiða, meðal annars í Háskóla Íslands, við Háskólann á Bifröst og Listaháskóla Íslands. Hann er í rannsóknarsamstarfi við The Cooper Union for the Advancement of Sciences and the Arts í New York.

Helstu rannsóknarsvið Hauks eru skipulagsheildarfræði, þróun skipulagsheilda, samskipti, samningagerð, deilustjórnun, aflfræði hópa, sálaraflsfræðilegar kenningar, sálgreining og tengsl hennar við aðra strauma og stefnur innan sál-, tauga- og geðlæknisfræða, æðri hugsun, siðfræði og hagnýting hugvísinda í verkvísindalegu samhengi. Hann er annar eigandi Nordica ráðgjafar ehf. og sinnir ráðgjöf á hennar vegum.

Haukur er þekktur sem fyrirlesari bæði á Íslandi og erlendis. Hann er fjallgöngumaður og meðlimur í Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík. Nánari upplýsingar um Hauk má finna hér: www.academia.edu

Netfang Hauks Inga er haukur@ncg.is

Elín Júlíana Sveinsdóttir

Elín Júlíana Sveinsdóttir

Endurmenntun Háskóla Íslands

Elín Júlíana Sveinsdóttir (f. 1978) lauk B. Ed-prófi í kennarafræðum frá Háskólanum á Akureyri árið 2005 og lauk diplómanámi í náms- og starfsráðgjöf frá Háskóla Íslands árið 2009 og mastersnámi í náms- og starfsráðgjöf 2012. Hún hefur starfað sem verkefnastjóri og náms- og starfsráðgjafi tengt símenntun fullorðinna frá 2009. Elín starfar hjá Endurmenntun Háskóla Íslands sem verkefnastjóri og náms- og starfsráðgjafi. Hún hefur mikinn áhuga á mannlegu eðli og ólíkir menningarheimar heilla hana. Elín annast um hagnýta þætti námsins.
Netfang Elínar Júlíönu er elins@hi.is

Elín Margrét Hallgrímsdóttir

Elín Margrét Hallgrímsdóttir

Símenntunarstjóri Háskólans á Akureyri

Elín Margrét Hallgrímsdóttir (f. 1953) er með B.Sc. próf í hjúkrunarfræði frá Háskólanum á Akureyri og M.Sc. próf með áherslu á stjórnun frá University of Glasgow. Hún starfaði um árabil sem hjúkrunarfræðingur; meðal annars sem deildarstjóri og sérfræðingur í bráðahjúkrun á Sjúkrahúsinu á Akureyri og Háskólasjúkrahúsinu í Stafangri í Noregi. Frá árinu 1999 hefur hún starfað við Háskólann á Akureyri, fyrst sem sérfræðingur á Rannsóknamiðstöð og síðan sem símenntunarstjóri og stundakennari við hjúkrunarfræðideild. Þá átti hún sæti í bæjarstjórn Akureyrar árin 2006-2010. Áhugamál hennar tengjast útivist og hreyfingu ásamt menningu og listum.

Netfang Elínar Margrétar er emh@unak.is