Stefnumótunarfærni
Fyrra misseri
36 klukkustundir / 52 kennslustundir
Námskeiðslýsing
Í námskeiðinu Stefnumótunarfærni er fjallað með hagnýtum hætti um stefnumótun, sóknarhugsun og sóknaráætlun. Rætt er um eðli skipuheilda (félaga, stofnana, fyrirtækja), hlutverk þeirra, gildi og framtíðarsýn. Leiðbeint er um gerð stöðumats- og umhverfisgreininga á skipuheildum og fjallað um forsendur vaxtar innan félaga, fyrirtækja og stofnana. Sýnt er fram á hvernig má forgangsraða áhersluþáttum í sóknaráætlun, skilgreina meginmarkmið, starfsmarkmið og aðgerðir. Þá er fjallað um mikilvægi innleiðinga og eftirfylgni sóknaráætlunar og beitt er hagnýtri aðferð við að gera stefnumótun fyrir skipuheild. Sérstök áhersla er lögð á að þátttakendur geti beitt sér markvisst í stefnumótunarvinnu, sem og framsögn og hópstarf og að þeir geti haldið góða kynningu á stefnumótunarverkefni sem þeir hafa unnið að. Í námskeiðinu eru útskýrð tengsl stefnumótunar, innleiðingar og verkefnastjórnunar.
Umsjónarkennari
- Dr. Helgi Þór Ingason (Netfang: helgi@ncg.is).
- Gestakennarar sem kynntir verða í námskeiðinu.
- Viðtalstímar í lok kennslustunda eða samkvæmt samkomulagi.
Námsmarkmið
Að loknu námskeiðinu á nemandinn að geta:
- Skilgreint hvað stefnumótun er.
- Skilið og útskýrt þýðingu hugtakanna „hlutverk, gildi og framtíðarsýn“ í samhengi skipuheildar.
- Gert stöðumats- og umhverfisgreiningar á skipuheildum.
- Útskýrt forsendur vaxtar innan fyrirtækja.
- Forgangsraðað áhersluþáttum í sóknaráætlun.
- Skilgreint meginmarkmið.
- Skilgrein starfsmarkmið.
- Skilgreint aðgerðir.
- Sinnt innleiðingu og eftirfylgni sóknaráætlunar.
- Beitt sér í framsögn og í hópstarfi.
- Útskýrt mikilvægi hópstarfs í stefnumótun.
- Stýrt fundum.
- Beitt hagnýtri aðferð við stefnumótun skipuheilda.
- Haldið góða kynningu á stefnumótunarverkefni.
- Útskýrt tengsl stefnumótunar, innleiðingar og verkefnastjórnunar.
Lesefni
- Helgi Þór Ingason og Haukur Ingi Jónasson: Stefnumótunarfærni: Markmið, stefna og leiðir, JPV útgáfa, Reykjavík, 2011. Öll bókin.
- Ítarefni verður kynnt þátttakendum í námskeiðinu.
Kennsluáætlun
Námskeiðið skiptist í 9 lotur.
- Lota 1: Stefnumótun, fræði og hagnýting.
- Lota 2: Stefnumótunarferlið.
- Lota 3: Innri greiningar á hagsmunaaðilum.
- Lota 4: Innri greiningar á stjórnskipulagi og fjárhag.
- Lota 5: Ytri greiningar á viðskiptaumhverfi og samkeppni.
- Lota 6: Ytri greiningar á viðskiptavinum og stöðu á markaði.
- Lota 7: Framsögn og hópstarf.
- Lota 8: Kjarni málsins.
- Lota 9: Sóknaráætlun og framkvæmd hennar.

Kennslufyrirkomulag
- Námskeiðinu er skipt í kennslulotur sem samanstanda af fyrirlestrum, umræðum og verkefnavinnu. Mikilvægt er að nemendur mæti vel undirbúnir í tíma því gert er ráð fyrir virkri þátttöku í hópstarfi og umræðum.
- Nemandinn fær jafnframt tækifæri til að þjálfa sig í framsögn, kynningum, hópavinnu og fundatækni.
- Nemendum er skipt upp í vinnuhópa strax á fyrsta degi og unnið er með raunhæf verkefni þar sem unnin er stefnumótun fyrir skipuheild.
- Í seinustu lotu kynnir hver hópur afrakstur starfsins og leggur fram skýrslu.
Námsmat, próf og verkefni
Gefið er STAÐIÐ eða EKKI STAÐIÐ fyrir námskeiðið. Námsmat samanstendur af eftirfarandi þáttum:
Krossapróf úr efni námskeiðsins
Í lok námskeiðsins er lagt fyrir tveggja klukkustunda langt krossapróf. Spurt er bæði um efni kennslubókar og um það sem unnið var með í tímum. Nánar um krossaprófið er að finna hér. LINKUR Á www.vogl.is/namsmat
Hópverkefni / Stefnumótun skipuheildar
Þátttakendur vinna í hópum að stefnumótun skipuheildar. Afurðir þessarar vinnu eru annars vegar stefnumótunarskýrsla og hins vegar kynning á þessari skýrslu. Leiðbeinandi gerir nánari grein fyrir inntaki og framsetningu skýrslunnar í upphafi námskeiðsins.
Ástundun og mæting
Lögð er rík áhersla á að nemendur mæti í tíma og séu vel með á nótunum. Til að standast námskeiðið þarf nemandi að skila minnsta kosti 75% mætingu nema ef um annað er samið við kennara vegna sérstakra aðstæðna. Mætingalistar ganga um bekkinn í hverri lotu og þátttakendur merkja við nafn sitt til staðfestingar á viðveru sinni.
Vinnuálag og einingar
- Námskeiðið Stefnumótunarfærni er hannað eins og það væri 6 ECTS-eininga námskeið í grunnnámi á háskólastigi samkvæmt Bologna-viðmiðunum um æðri menntun. Þannig er reiknað með að hver þátttakandi leggi á sig að minnsta kosti 120 klukkustunda vinnu í námskeiðinu. Til viðmiðunar má segja að hver þátttakandi leggi fram 36 klukkustundir í tímasókn, 36 klukkustundir í lestur og persónulega tileinkun námsefnis, og 48 klukkustundir í verkefnavinnu.
- Að námi loknu fá nemendur afhent skírteini ásamt yfirlýsingu frá Nordica ráðgjöf ehf. sem lýsir inntaki námskeiðsins, kröfum og námsmati. Þátttakendur geta sýnt þessi gögn verðandi vinnuveitendum, ráðgjafarfyrirtækjum, og menntastofnunum ef hugur þeirra stendur til framhaldsnáms á þessu sviði.