Skipulagsfærni

Seinna misseri
36 klukkustundir / 52 kennslustundir

Námskeiðslýsing

Námskeiðið Skipulagsfærni fjallar um grundvallarhugtök og helstu viðmið verkefnastjórnunar, sem öflugrar nútímalegrar stjórnunaraðferðar. Rætt er um skipuheildir og samhengið á milli skipuheildanna og verkefna sem unnin eru á þeirra vegum, meðal annars val verkefna og greiningu á umhverfi þeirra. Ítarlega er fjallað um margvíslega tæknilega fleti verkefnastjórnunar. Hugtakið „æviskeið“ er útskýrt og helstu áfangar þess, meðal annars verkefnisræs og verkefnislúkning. Í námskeiðinu er sérstök áhersla lögð á áætlanagerð. Meðal annars er fjallað um mælanleg markmið í verkefnum, hvernig verkefni eru brotin í verkþætti með sundurliðun, hver eru helstu hlutverk í verkefnastjórnun, stjórnskipulag, og hvernig halda má utan um samskipti og upplýsingar. Í námskeiðinu er einnig fjallað um ýmsa atferlisþætti í verkefnastjórnun en þeir eru þó enn frekar til umfjöllunar í námskeiðunum Leiðtogafærni og Samskiptafærni.

Í námskeiðinu Skipulagsfærni fá þátttakendur þjálfun í að beita lykilaðferðum verkefnastjórnunar til að auka skipulagsfærni sína. Áhersla er lögð á að skilja á milli verkefnastjórnunar og verkefnisvinnu og munurinn á þessu er dreginn fram með skýrum hætti. Leiðbeint er um hvernig undirbúa má verkefni með markvissri áætlanagerð sem unnin er í krefjandi hópstarfi. Nemendur vinna að raunhæfu verkefni í námskeiðinu sem þeir síðan kynna fyrir samnemendum sínum undir lok þess. Mörg verkefnanna í náminu hafa rutt braut fyrir skemmtilega framvindu í íslensku athafnalífi og samfélagi. Öll meginhugtökin í hugtakagrunni Verkefnastjórnunarfélags Íslands (VSF) í verkefnastjórnun eru skilgreind og þátttakendur undirgangast alþjóðlegt vottunarpróf Alþjóðasamtaka verkefnastjórnunarfélaga (IPMA, stig D) sem verkefnastjórar. Umsjón með vottunarprófinu er í höndum VSF.

Umsjónarkennari

 • Dr. Helgi Þór Ingason (Netfang: helgi@ncg.is)
 • Gestakennarar sem kynntir verða í námskeiðinu.
 • Viðtalstímar í lok kennslustunda eða samkvæmt samkomulagi.

Námsmarkmið

Við lok námskeiðsins á nemandinn að geta:

 • Útskýrt grundvallaratriði í verkefnastjórnun.
 • Beitt lykilaðferðum verkefnastjórnunar.
 • Skilið og útskýrt muninn á verkefnastjórnun og verkefnisvinnu.
 • Beitt margháttuðum aðferðum til að auka skipulagsfærni sína.
 • Undirbúið verkefni með markvissri áætlanagerð.
 • Beitt þekkingu sinni á raunhæf dæmi í krefjandi hópstarfi.
 • Beitt sér markvisst í framkvæmd verkefna.
 • Skilgreint öll meginhugtökin í hugtakagrunni VSF í verkefnastjórnun.
 • Undirgengist alþjóðlegt vottunarpróf (IPMA, stig D) og fengið vottun sem verkefnastjórar.

Námsefni

 • Helgi Þór Ingason og Haukur Ingi Jónasson: Skipulagsfærni: Verkefni, vegvísar og viðmið, JPV útgáfa, Reykjavík, 2012. Öll bókin.
 • Ítarefni er kynnt þátttakendum í námskeiðinu.
 • Nemendur fá fyrirlestraslæður afhentar á pdf-formi ýmist fyrir eða eftir kennslu.
 • Á Facebook-síðu námskeiðsins er samfélag nemenda sem hafa tekið sambærileg námskeið hjá Nordica ráðgjöf ehf.

Kennsluáætlun

Námskeiðið skiptist i 9 lotur:

 • Lota 1: Inngangur og samhengi.
 • Lota 2: Atvinnulífið og verkefni.
 • Lota 3: Áætlanagerð: Skilgreining, umhverfi og markmið.
 • Lota 4: Áætlanagerð: Tími og hin bundna leið.
 • Lota 5: Áætlanagerð: Aðföng og stjórnskipulag.
 • Lota 6: Verkefnisræs, samstarf og upplýsingar.
 • Lota 7: Óvissustjórnun.
 • Lota 8: Fjármál og kostnaðaráætlanir.
 • Lota 9: Kynning (próf) á verkefnum.

Kennslufyrirkomulag

 • Afar mikilvægt er að nemendur mæti vel undirbúnir í tíma því þeir hafa mest gagn af þeim umræðum sem fram fara í kennslustofunni ef þeir hafa aflað sér vitneskju fyrirfram um viðfangsefnin.
 • Kennsla fer fram í hefðbundinni kennslustofu en fyrirkomulagið er að jafnaði þannig að blandað er saman fyrirlestrum og vinnu í hópstarfi með efni fyrirlestranna. Kennarar raða nemendum í hópa. Einnig eru nokkrir tímar sem kalla á að nemendur mæti með fartölvur og vinni með hugbúnað til áætlanagerðar undir leiðsögn sérfræðinga. Annars er vísað á kennsluáætlun sem útskýrir þetta fyrirkomulag.
 • Rétt er að fram komi að gert er ráð fyrir að verkefnahóparnir taki fyrir raunhæft verkefni úr skipuheild (félag, fyrirtæki, stofnun, eða deildir þar innan) sem einhver í hópnum hefur aðgang að.

Námsmat: Próf og verkefni

Gefið er STAÐIÐ/FALLIÐ fyrir námskeiðið. Við mat á árangri er stuðst við eftirfarandi þætti:

Krossapróf úr efni námskeiðsins
Í lok námskeiðsins er lagt fyrir tveggja klukkustunda langt krossapróf. Spurt er bæði um efni kennslubókar og um það sem unnið var með í tímum. Nánar um krossaprófið er að finna hér.

Hópverkefni / Verkefnisáætlun
Áætluninni er skilað sem heildstæðri skýrslu en nánari grein verður gerð fyrir viðmiðum síðar. Gefið er fyrir framsetningu í ræðu og riti.

Hópverkefni / Skilamat
Felst í að skýra frá reynslu sem varð til í hópnum við gerð verkefnisáætlunar og að draga ályktanir af þeirri reynslu. Skilamatinu er skilað sem sjálfstæðum viðauka verkefnisáætlunar.

Ástundun og mæting
Lögð er rík áhersla á að nemendur mæti í tíma og séu vel með á nótunum. Til að standast námskeiðið þarf nemandi að mæta að minnsta kosti 75% nema ef um annað er samið við kennara vegna sérstakra aðstæðna. Athugið að tekið er mið af þátttöku í sameiginlegum verkefnum og þátttakandi sem ekki sýnir samstarfi við aðra áhuga mun ekki ljúka námskeiðinu. Mætingalistar ganga um bekkinn í hverjum tíma og þátttakendur merkja við nafn sitt til staðfestingar á viðveru sinni.

D-vottunarpróf
Náminu Verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun lýkur með D-vottunarprófi sem lagt er fyrir af Verkefnastjórnunarfélagi Íslands (VSF). Þátttakendur þurfa að standast það próf til að ljúka náminu í heild. Þátttakendum er bent á að kynna sér vel viðmið Nordica ráðgjafar í námsmati hér.

Vinnuálag og einingar

 • Námskeiðið Skipulagsfærni er hannað eins og það væri 6 ECTS-eininga námskeið í grunnnámi á háskólastigi samkvæmt Bologna-viðmiðunum um æðri menntun. Þannig er reiknað með að hver þátttakandi leggi á sig að minnsta kosti 120 klukkustunda vinnu í námskeiðinu. Miða má við að hver þátttakandi leggi fram 36 klukkustundir í tímasókn, 36 klukkustundir í lestur og persónulega tileinkun námsefnis, og 48 klukkustundir í verkefnavinnu.
 • Að námi loknu fá nemendur afhent skírteini ásamt yfirlýsingu frá Nordica ráðgjöf ehf. sem lýsir inntaki námskeiðsins, kröfum og námsmati. Þátttakendur geta sýnt þessi gögn verðandi vinnuveitendum, ráðgjafarfyrirtækjum, og menntastofnunum ef hugur þeirra stendur til framhaldsnáms á þessu sviði.