Saga námsins

Námið Verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun varð til sumarið árið 2002 á fundum þar sem við félagarnir – Helgi og Haukur – ásamt Tryggva Sigurbjarnasyni ráðgjafarverkfræðingi, hittumst og bárum saman bækur okkar. Verkfræðingarnir Helgi Þór og Tryggvi höfðu starfað saman að ráðgjöf og kennslu á sviðum verkefnastjórnunar um árabil. Leiðir þeirra og guðfræðingsins og sálgreinisins Hauks Inga lágu saman eftir að Haukur hafði haft samband við Helga, gamlan skólafélaga úr Menntaskólanum við Sund, og spurt hann hvort þeir félagarnir ættu ekki að finna upp á einhverju skemmtilegu að gera. Helgi hélt nú það, kynnti þá Tryggva og eftir ítarlegt spjall og ráðagerðir stofnuðu þeir félagarnir saman ráðgjafarfyrirtækið Nordica ráðgjöf ehf. Á mörgum skemmtilegum fundum voru lögð drög að nýju og metnaðarfullu námi sem strax fékk vinnuheitið Verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun. Þetta heiti átti að endurspegla þá megináherslu sem alla tíð síðan hefur verið leiðarljós námsins sem er að þróa stjórnendur faglega og þroska þá jafnframt sem einstaklinga. Starf verkefnastjórnandans felur vissulega í sér áætlanagerð, innleiðingu og eftirfylgni verkefna, en það felur ekki síður í sér margháttuð mannleg samskipti og hvernig ná má árangri og leiða fólk án formlegs boðvalds. Það var trú þeirra Tryggva, Hauks Inga og Helga Þórs að til að gagnast atvinnulífinu yrði námið að taka á þessu. Sérstaða námsins hefur því frá upphafi falist í því að vefa saman í sterka taug bæði hlutlæga þætti (áþreifanlega og mælanlega) og huglæga þætti (óáþreifanlega og oft illmælanlega) stjórnunar.

Þegar námið var fullhannað haustið 2002 var fundað með Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands og samkomulag náðist um að bjóða upp á námið í samstarfi Nordica og Endurmenntunarstofnunar. Fyrsti hópurinn settist á skólabekk í janúar 2003 en næsti hópur í september sama ár. Frá upphafi fór gott orð af náminu og nemendur voru ánægðir með menntunina og reynsluna sem í því fólst. Einn nemendahópur var jafnan í gangi ár hvert en breyting varð á því árið 2008, og á árunum eftir hrun, því þá snarjókst eftirspurn eftir náminu Verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun og árin 2009–2011 voru tveir hópar í gangi ár hvert.

Námið Verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun er í stöðugri þróun. Námið er skipulagt sem fjögur námskeið – Leiðtogafærni, samskiptafærni, stefnumótunarfærni og skipulagsfærni – og árin 2011 og 2012 gaf JPV útgáfa út fjórar bækur með þessu titlum eftir þá Helga Þór Ingason og Hauk Inga Jónasson. Bækurnar, sem hafa fengið frábærar viðtökur, eru kennslubækur í námskeiðunum.

Námið Verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun var rýnt af Alþjóðasamtökum verkefnastjórnunarfélaga (IPMA) sumarið 2011 og er skráð í alþjóðlegum gagnagrunni samtakanna. Umsjón með vottuninni var í höndum Dönsku verkefnastjórnunarsamtakanna. Enska heiti námsins er Transparent Leadership and Sustainable Project Management. Nánari upplýsingar um það er að finna á heimasíðu Nordica Consulting Group. Bækurnar Leiðtogafærni, Samskiptafærni, Stefnumótunarfærni og Skipulagsfærni hafa verið þýddar á ensku og gefnar út af Routledge og Taylor/Francis í Bretlandi og Bandaríkjunum.

Námið Verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun hefur frá upphafi verið kennt við Endurmenntun Háskóla Íslands, nema veturinn 2012-2013 þegar það var kennt við Opna háskólann við Háskólann í Reykjavík. Námið hefur einnig verið kennt í samstarfi við Símenntun Háskólans á Akureyri.

Umsjónaraðili námsins við Endurmenntun er Sigrún Edda Eðvarðsdóttir. Á Akureyri heldur Stefán Guðnason hjá Símenntun HA utan um námið.

Við erum nú sem fyrr innilega þakklátir fyrir að finna fyrir skilningi á metnaði okkar. Við erum líka þakklátir fyrir að finna ítrekað fyrir margháttuðum uppbyggilegum áhrifum námsins á nemendur okkar og á íslenskt athafna- og þjóðlíf.

Með bestu kveðju,

Haukur Ingi og Helgi Þór